Sagan

Saga Illugastaða

Árið 1966 kaupir Alþýðusamband Norðurlands jörðina Illugastaði Í Fnjóskadal af Sigurði O. Björnssyni fyrir kr. 300.000. Miklar vangaveltur höfðu verið innan sambandsins um að festa kaup á hentugu og vel staðsettu jarðnæði til að hefja uppyggingu á orlofshúsasvæði fyrir félögin á Norðurlandi.



Fyrsti umsjónarmaður með orlofsbyggðinn var Rósber G. Snædal frá 1968 til 1970 en þá tók Björn Gunnarsson við starfi umsjónarmanns. Árið 1974 tóku hjónin Hlíf Guðmundsdóttir og Jón Þ. Óskarsson við umsjón á Illugastöðum og gegndu því starfi til ársins 2022. Þá tóku við hjónin Sigrún Kristbjörnsdóttir og Þórólfur Egilsson og eru þau staðarhaldarar á Illugastöðum í dag. 

Fyrsti áfangi í fullum gangi

1967-1970

Á sjöunda áratug síðustu aldar var mikill uppgangur í störfum verkalýðsfélaga og áhersla lögð á félagslegar framfarir. Ein birtingarmynd þess voru orlofsbyggðir þar sem almennu launafólki gafst kostur á að dvelja í bústað og njóta hvíldar í notalegu umhverfi.



1967 var samið við Tréverk hf. á Dalvík um að byggja sumarhús á Illugastöðum. Fyrstu sex húsin voru byggð og afhent um haustið. Fjögur hús voru svo afhent 15. júní 1968. Húsunum fjölgaði svo hægt og bítandi fram til 1970 en þá voru síðustu húsin í efra hvefinu afhent. 

Þjónustumiðstöð byggð

1972-1981

Árið 1972 er hafin bygging þjónustuhúss á svæðinu og lokið við íbúð húsvarðar 1973. Ekki tókst að ljúka við framkvæmdir við salinn í þjónustuhúsinu fyrr en 1981. Stafaði það fyrst og fremst af fjármagnsskorti og þar spilaði inn í vandamál vegna þess að bygging og rekstur orlofshúsanna svo og eignarhald var allt á hendi Alþýðusambands Norðurlands, en mörg stéttarfélög sem áttu hús á Illugastöðum voru ekki aðilar að sambandinu og töldu því með nokkrum sanni að þau félög hefðu takmarkaða aðkomu að rekstri og öllum tilfallandi kostnaði. Töldu þau félög að skilja yrði á milli reksturs Alþýðusambands Norðurlands og byggingu og rekstri orlofssvæðisins.  Um þetta var þrefað nokkuð og lokum varð samkomulag árið 1980 um að stofna Orlofsbyggðina Illugastaði sem sæi alfarið um allar framkvæmdir þ.m.t. allar nýbyggingar  og rekstur orlofssvæðisins.  Hið nýja félag gerði síðan samning við Alþýðusamband Norðurlands um afnot af jarðnæðinu og yfirtöku á mannvirkjum. 

Neðra hverfið

1978 og 1979

Árið 1977 voru hafnar framkvæmdir við byggingu nýs tólf húsa áfanga í svokölluðu neðra hverfi.  Samið var við Trésmiðjuna Rein um byggingaframkvæmdir og voru þessi tólf hús afhent á árunum 1978 og 1979.

Sundlaugin byggð

1988

Á 60 dögum árið 1988 var byggð sundlaug á Illugstöðum. Samið var við Trésmiðjuna Rein um byggingu sundlagar og tilheyrandi mannvirkja þ.e. heitra potta, búningsaðstöðu gufubaðs og mannhelda girðingu umhverfis mannvirkin. Framkvæmdin tókst í alla staði mjög vel og tók einungis sextíu daga frá því fyrsta skóflustungan var tekin og þar til stjórnarmenn stungu sér til sunds í hinni nýju og glæsilegu sundlaug. 

Á myndinni hér til hliðar má sjá er fyrsta skóflustungan var tekin og hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá framkvæmdinni.

Vélaskemman byggð

2001

Árið 2001 var byggð vélageymsla á svæðinu, sem var mikið framfaramál. 

Ný hús

2002

Árið 2002 koma fyrstu nýju húsin á svæðið þegar byrjað var að skipta út eldri húsum í byggðinni. 

Hitaveitan mætir á svæðið

2006

Árið 2006 er raunar það árið sem mestu umskiftin verða á svæðinu í langan tíma þ.e. þegar hitveita er lögð frá Reykjum til Grenivíkur. Þá rættist áratuga draumur þeirra sem Fnjóskadalinn byggja, þ.e. að geta nýtt heita vatnið til að auka lífsgæði fólksins í dalnum fagra. Óætt er að fullyrða að enginn einn atburður hefur haft jafn mikil og góð áhrif á aðstöðuna á Illugastöðum og þar með á líðan okkar góðu gesta. Mikill og góður hiti var nú ávallt til staðar í húsunum. Stórir góðir heitir pottar settir við öll hús. Einnig voru settir atórir og skjólgóðir sólpallar við öll hús og síðast en ekki síst voru allar akbrautir og gangstígar malbikaðir sem jók verulega á allt hreinlæti á svæðinu utan húss sem innan. 

Illugastaðir 50 ára

9. september 2018

Í tilefni af 50 ára afmælis Orlofsbyggðarinnar Illugastaða á árinu 2018 var haldinn Illugastaðadagur 9. september það ár. Til sýnis voru nokkur hús, það var ókeypis í sund og boðið var upp á kaffi, safa, kleinur og grillaðar pylsur. Einnig var hægt að glugga í gömul myndaalbúm af svæðinu.

Share by: