Orlofshúsabyggðin á Illugastöðum í Fnjóskadal er fyrir löngu vel kunn flestum landsmönnum, svo margir hafa dvalið þar eða litið við hjá vinum og kunningjum sem þar hafa dvalið. Illugastaðir eru sívinsæll orlofsstaður.
Húsin á Illugastöðum hafa öll verið endurnýjuð og lagfærð á undanförnum árum og eru nú hin glæsilegustu að innan sem utan. Hitaveita er á svæðinu og er heitur pottur við öll hús. Illugastaðir eru ákaflega vinsæll orlofsdvalarstaður og þangað sækir fólk af öllu landin. Fnjóskadalur státar af náttúrufegurð og er dalurinn sannkölluð perla fyrir náttúruunnendur, sérstaklega þá sem hafa áhuga á gönguferðum, jafnt að sumri sem vetri. Í flestum orlofshúsunum á Illugastöðum er svefnpláss fyrir átta manns í hverju húsi ásamt sængum fyrir jafnmarga.
Húsin eru flest um 45 fermetrar að stærð og eru vel búin, meðal annars er í húsunum sturta, ísskápur, eldavél, örbylgjuofn, borðbúnaður, gasgrill, útvarp sjónvarp og nettenging.
Eitt af húsunum er sérstaklega útbúið með gott aðgengi fyrir fatlaða einstaklinga, hús nr. 26. Þeir sem þurfa á því að halda þurfa að hafa samband við Einingu-Iðju.
Á Illugastöðum er sundlaug sem er opin yfir sumartímann.
Leikvöllur er á svæðinu með skemmtilegum leiktækjum fyrir börnin, m.a. ærslabelg. Stutt er yfir í Vaglaskóg þar sem miklir möguleikar eru til gönguferða.